Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.


Lög um skólakostnað1)

1967 nr. 49 29. apríl


1)Ákvæði þessara laga gilda ekki um grunnskóla, sbr. XIV. kafla l. 49/1991. Lögin falla úr gildi 1. ágúst 1996, sbr. l. 66/1995, 57. gr.

I. kafli.
Almenn ákvæði.
1. gr.
     Lög þessi taka til eftirtalinna skóla: barnaskóla, unglingaskóla, miðskóla, gagnfræðaskóla, iðnfræðsluskóla og húsmæðraskóla, sem kostaðir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum.
     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála, sem lög þessi fjalla um.

2. gr.
     Menntamálaráðuneytið ákveður skiptingu alls landsins í fræðsluhéruð og skólahverfi og hvar stofna skuli heimangönguskóla og hvar heimavistarskóla, að fengnum tillögum fræðslumálastjóra, hlutaðeigandi skólanefnda (fræðsluráða) og sveitarstjórna og iðnfræðsluráðs að því er iðnfræðsluskóla varðar.

3. gr.
     Menntamálaráðuneytið lætur fara fram athugun á skólabyggingaþörf á öllu landinu fyrir þau skólastig, sem lög þessi taka til.

II. kafli.
Stofnkostnaður.
4. gr.
     Menntamálaráðuneytið gerir eða lætur gera framkvæmdaáætlun um skólabyggingar fyrir allt landið:
a.
Er taki til allt að tíu ára tímabils. Framkvæmdaáætlun þessa skal endurskoða svo oft sem ástæða þykir til.
b.
Árlega framkvæmdaáætlun, sem fylgi tillögum til fjárveitinga í fjárlögum.

     Röðun framkvæmda miðast við, hvar skólabyggingaþörf er brýnust að áliti ráðuneytisins.

5. gr.
     Í menntamálaráðuneytinu skal vera deild, sem hefur með höndum eftirlit með byggingu skólamannvirkja. Í deildinni skulu m.a. starfa húsameistari, verkfræðingur og byggingaeftirlitsmenn. Byggingadeildin skal annast eftirlit með undirbúningi skólamannvirkja, endurskoða teikningar, kostnaðaráætlanir, útboðs- og vinnulýsingar, líta eftir, að framkvæmd verksins sé í samræmi við teikningar og útboðs- og vinnulýsingar, sjá um úttekt að verki loknu o.s.frv.
     Byggingadeild ráðuneytisins lætur í té upplýsingar um þær reglur (norm), miðað við nemendafjölda og kröfur um frágang og búnað, sem framlag ríkisins skal miðast við, sbr. 7. gr.
     Í reglugerð skal kveða á um þær reglur (norm), sem stofnkostnaðargreiðslur miðast við.

6. gr.
     Sveitarstjórnir ráða sérfræðinga til þess að gera uppdrætti að skólamannvirkjum, verklýsingar og áætlun um framkvæmd verksins og kostnað.
     Ráðuneytinu skal senda alla uppdrætti, verklýsingar og kostnaðaráætlanir, ásamt skipulagsuppdrætti af skólastað þeim, sem ráðuneytið hefur samþykkt, samninga eða staðfest skilríki um, að lóð og landrými sé fyrir hendi kvaðalaust, vatnsréttindi séu tryggð og samningur gerður um afnot af jarðhita, ef fyrir hendi er.
     Hlutaðeigandi sveitarfélög leggja til á sinn kostnað lóðir til skólamannvirkja, sem lög þessi ná til. [Nú næst ekki samkomulag um kaup á nauðsynlegu landi undir skólamannvirki, og er þá heimilt að taka það eignarnámi. Fer um slíkt eignarnám eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.1)]2)

1)L. 11/1973.2)L. 30/1973, 1. gr.


7. gr.
     Ríkissjóður greiðir 50% áætlaðs stofnkostnaðar fullbúins kennslurýmis þeirra skóla, sem lög þessi taka til, og 85% af stofnkostnaði fullbúins heimavistarrýmis, þ. á m. skólastjóra- og kennaraíbúða við heimavistarskóla.
     Ríkissjóði er heimilt að greiða 75% af áætluðum stofnkostnaði skólastjóra- og kennaraíbúða skyldunámsins við þá heimangöngu- eða heimanakstursskóla, þar sem að dómi menntamálaráðuneytisins væri ekki hægt að ráða skólastjóra og/eða fasta kennara, nema slíkt húsnæði sé til.
     Sameinist tvö eða fleiri núverandi sveitarfélög um heimavistarskóla skyldunáms eða iðnfræðslu með samþykki menntamálaráðuneytisins, greiðir ríkissjóður einn allan stofnkostnað heimavistarrýmis, þ. á m. skólastjóra- og kennaraíbúðir. Greiðsla á stofnkostnaði miðast við reglur (norm) byggingadeildar ráðuneytisins, sbr. 5. gr.
     Til stofnkostnaðar samkvæmt lögum þessum telst, auk alls húsnæðis, innanstokksmunir, kennslutæki, áhöld og búnaður. Auk þess teljast til stofnkostnaðar þau útgjöld, sem nauðsynleg eru vegna tengingar við almenningsveitur og vegakerfi næsta nágrennis, og kostnaður við frágang skólalóðar, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Kostnaður við borun eftir heitu eða köldu vatni, sem eingöngu er gerð fyrir skólann, með samþykki menntamálaráðuneytisins, telst til stofnkostnaðar, sem ríkissjóður tekur þátt í, en réttindakaup annast sveitarsjóðir á sinn kostnað.
     Allan annan stofnkostnað en þann, sem ríkissjóður greiðir samkvæmt framansögðu, greiða hlutaðeigandi sveitarsjóðir.

8. gr.
     Kostnaðaráætlun skólamannvirkja skal miða við byggingarkostnað á þeim tíma, er áætlunin er staðfest. Hækki vísitala byggingarkostnaðar eða sérstök vísitala skólamannvirkja, reiknuð af Hagstofu Íslands, frá staðfestingardegi áætlunarinnar til útborgunartíma framlaga samkvæmt 14. gr., hækkar framlag ríkissjóðs í sama hlutfalli, og skal byggingarframlag ríkissjóðs leiðrétt í fjárlögum næsta árs á eftir. Þessi ákvæði gilda einnig um geymdar fjárveitingar til skólamannvirkja.

9. gr.
     Eigi má hefja framkvæmdir, fyrr en fé hefur verið veitt í fjárlögum og fyrir liggur skriflegt samþykki menntamálaráðuneytisins. Ef hafnar eru framkvæmdir án samþykkis ráðuneytisins, verður stofnkostnaður ríkissjóði óviðkomandi. Séu þegar samþykktar fjárveitingar Alþingis til skólamannvirkis ónógar til að greiða 1/3 af áætluðu stofnkostnaðarframlagi ríkisins, má menntamálaráðuneytið eigi leyfa að hefja framkvæmdir, fyrr en að fengnu skriflegu samþykki fjármálaráðuneytisins.

10. gr.
     ...1)

1)L. 34/1982, 14. gr.


11. gr.
     Ef tvö eða fleiri sveitarfélög eða hlutar úr þeim standa að sama skóla, þá skulu þau, ef ekki verður samkomulag um annað, greiða sinn hluta stofnkostnaðar eftir sömu reglum og sýslusjóðsgjald er lagt á samkvæmt 101. gr. laga nr. 58/1961.1)

1)Sjá nú l. 8/1986.


12. gr.
     Heimilt er ríkissjóði að greiða framlag til stofnkostnaðar íþróttahúsa og sundlauga, opinna eða yfirbyggðra, sem bæjar- og sveitarfélög hyggjast reisa ein eða í samvinnu við íþrótta- eða ungmennafélög, á sama hátt og um stofnkostnað kennslurýmis væri að ræða, miðað við nýtingu vegna skólahalds.
     Áður en framkvæmdir hefjast, skal ráðuneytið gera samning við eigendur þeirra íþróttamannvirkja, er undir lög þessi falla, um afnot skóla af mannvirkjunum og um stjórn þeirra.
     Þátttaka ríkissjóðs í stofnkostnaði íþróttamannvirkja samkvæmt lögum þessum er háð því, að fylgt hafi verið ákvæðum 6. gr. þessara laga um undirbúning og 9. gr., um hvenær hefja megi framkvæmdir, svo og að mótframlag sveitarfélaga sé greitt, sbr. 14. gr., áður en framlag ríkissjóðs er greitt. Sá hluti íþróttamannvirkis, sem byggður er samkvæmt lögum þessum, nýtur ekki styrks úr íþróttasjóði.

13. gr.
     Menntamálaráðuneytinu er heimilt að fresta greiðslu fjárveitinga að einhverju eða öllu leyti til byggingar þeirra skólamannvirkja, sem fyrirsjáanlegt er, að hvorki er hægt að ljúka að fullu né að nothæfum áfanga með fjárveitingum Alþingis, sem fyrir hendi eru, og framlögum sveitarfélaga. Skulu þá slíkar fjárveitingar geymdar í ríkissjóði, en jafnframt heimilt að veita lán af þeim til þess að hraða byggingu þeirra skólamannvirkja, sem unnið er að, til þess að ljúka þeim sem fyrst.

14. gr.
     [Fjárveitingar ríkisins til skólamannvirkja, aðrar en til undirbúnings framkvæmdum, skiptast á tvö til fjögur ár vegna hverrar framkvæmdar. Heildarframlag ríkissjóðs til hverrar framkvæmdar skal vera til reiðu innan fjögurra ára frá því að fyrsta fjárveiting er veitt, önnur en fjárveiting til undirbúnings, sbr. þó 8. gr., og greiðist með sex greiðslum, eftir því sem verkinu þokar áfram, þannig:]1) 20% þegar ráðuneytið hefur samþykkt, að verk megi hefja, 10% þegar botnplata er steypt, 20% þegar bygging er fokheld, 25% þegar múrverki er lokið og bygging er tilbúin undir tréverk, 20% þegar úttekt af hálfu ráðuneytisins hefur farið fram, 5% þegar skóli er fullbúinn til notkunar (hús og búnaður).
     Hafi sveitarfélag tvö eða fleiri skólamannvirki í smíðum samtímis, skal heimilt að greiða framlög ríkissjóðs án viðmiðunar við framangreind stig framkvæmda. Þegar framlög ríkissjóðs eru greidd á þennan hátt, skal árlegri fjárveitingu skipt í fimm jafnar greiðslur, sem greiðast 1. mars, 1. maí, 1. júlí, 1. október og 1. nóvember.
     Áætlun um skiptingu framlags ríkissjóðs til íþróttamannvirkja skv. 12. gr. eftir byggingarstigum framkvæmda skal ár hvert fylgja tillögum menntamálaráðuneytisins við undirbúning fjárlaga.
     Greiðsla á framlagi ríkissjóðs hverju sinni er háð því, að framlag viðkomandi sveitarsjóða sé greitt, og skulu framlög þeirra og mótframlög ríkissjóðs greidd í sérstakan reikning byggingarinnar í banka eða sparisjóði, sem samkomulag verður um milli menntamálaráðuneytisins og hlutaðeigandi sveitarfélaga.

1)L. 30/1973, 2. gr.


15. gr.
     Ef henta þykir að kaupa húsnæði til skólahalds, skal viðkomandi sveitarstjórn sækja um það til ráðuneytisins, sem lætur fara fram athugun og mat á verðmæti húsnæðisins. Ef af kaupum verður, tekur ríkissjóður þátt í kaupverði í sömu hlutföllum og í stofnkostnaði nýbygginga. Slíkar byggingar skulu teknar í framkvæmdaáætlun um skólabyggingar.
     Andvirði skólabifreiða greiðir ríkissjóður í sömu hlutföllum og stofnkostnaður mundi greiddur, ef að mati ráðuneytisins er hagkvæmara að kaupa sérstakar skólabifreiðir en að greiða fyrir flutning nemenda á annan hátt.

III. kafli.
Rekstrarkostnaður.
16. gr.
     Öll föst laun skólastjóra, fastra kennara og annarra starfsmanna, sem menntamálaráðuneytið ræður, setur eða skipar, svo og laun stjórnskipaðra prófdómenda, greiðast beint úr ríkissjóði.
     Ríkissjóður endurgreiðir sveitarfélögum mánaðarlega á starfstíma skóla laun vegna stunda- og forfallakennslu, allar aukagreiðslur til skólastjóra og kennara, sem leiðir af samningum ríkisins við stéttarsamtök þeirra eða af kjaradómi.
     Við heimavistarskóla skyldunámsins greiðir ríkissjóður laun ráðskvenna og aðstoðarstúlkna í mötuneyti, hafi fjöldi þeirra og ráðningarkjör hlotið samþykki ráðuneytisins, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð.
     Ríkissjóður greiðir að öllu leyti laun námsstjóra við barnaskóla, gagnfræðastigsskóla og húsmæðraskóla og annan kostnað af námseftirlitinu.
     Laun fræðslustjórans í Reykjavík greiðir ríkissjóður að hálfu og endurgreiðir kostnað af störfum hans sem námsstjóra að 1/4 hluta.

17. gr.
     Við ákvörðun reiknaðra stunda eru allar kennslustundir og aðrar starfsstundir kennara fyrir sama fræðslustig lagðar að jöfnu. Eigi skiptir máli, hvort greitt er fyrir þær með föstum launum eða þær eru greiddar sem stundakennsla. Á sama hátt er eigi gerður munur á venjulegum kennslustundum og þeim stundum, er greiðsla fyrir heimavinnu fylgir eða greiddar eru sem yfirvinna eða með álagi vegna vinnu í kaffitíma.

18. gr.
     Skólastjórar skulu í byrjun hvers almanaksárs gera áætlun um nemendafjölda, fjölda reiknaðra stunda á kennslumánuði og áætlaðan kostnað ríkissjóðs næsta skólaár samkvæmt III. kafla laganna. Áætlun þessa skal leggja fyrir skólanefnd til samþykktar og senda ráðuneytinu fyrir 15. apríl ár hvert eða annan þann dag, sem ráðuneytið ákveður.
     Í sveitarfélögum, þar sem fleiri en einn skóli er á sama fræðslustigi, skulu skólanefndir (fræðsluráð) sjá um deildaskiptingu í skólum og annast skiptingu reiknaðra stunda milli einstakra skóla. Að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins er skólanefndum (fræðsluráðum) í þessum sveitarfélögum heimilt að ráðstafa hluta reiknaðra stunda til sameiginlegra stjórnunarstarfa vegna skólanna. Jafnframt skulu skólanefndir (fræðsluráð) gera áætlun um kostnað ríkissjóðs vegna fjölda reiknaðra stunda og senda ráðuneytinu í samræmi við ákvæði fyrri málsgrein.
     Til reiknaðra stunda teljast, auk kenndra stunda, m.a. aðstoð við skólastjórn, störf að félagsmálum nemenda, leshjálp, umsjón, leiðbeiningarstörf við kennslu; enn fremur greiðslur fyrir eyður í stundaskrá og fyrir skrifstofuaðstoð, en slíkar greiðslur færast til reiknaðra stunda miðað við greiðslu fyrir stundakennslu í dagvinnu.
     Samanlagður fjöldi reiknaðra stunda fari ekki fram úr ákveðnu hámarki, sem er breytilegt eftir tölu nemenda samtímis í skóla, fræðslustigi, sérkennsluþörf og umsjónarþörf vegna heimavistar.

19. gr.
     Hámark reiknaðra stunda á kennslumánuði skóla, sem falla undir ákvæði þessara laga, miðað við að fullnægt sé ákvæðum námsskrár, er:
a.
Á barnafræðslustigi, miðað við 40 mínútna kennslustund: Fyrir skóla með: allt að 10 nemendum komi 9 stundir á hvern nemanda; 11–20 nemendum komi 90 stundir, auk átta stunda á hvern nemanda umfram 10; 21–40 nemendum komi 170 stundir, auk sjö stunda á hvern nemanda umfram 20; 41–80 nemendum komi 310 stundir, auk sex stunda á hvern nemanda umfram 40; 81–160 nemendum komi 550 stundir, auk fimm stunda á hvern nemanda umfram 80; 161–240 nemendum komi 950 stundir, auk fjögurra stunda á hvern nemanda umfram 160; fleiri en 240 nemendur komi jafnmargar stundir á hvern nemanda og fyrir skóla með 240 nemendur.
b.
Á gagnfræðastigi er miðað við 45 mínútna kennslustund, og fjöldi greiddra stunda má vera allt að 25% hærri en samkvæmt a-lið.
c.
Sé nemendastundafjöldi á kennslumánuði hærri en venjuleg námsskrá fyrir níu mánaða barnaskóla eða gagnfræðaskóla segir til um, vegna styttra skólaárs, eða víxlkennslu bekkja, hækkar stundafjöldi á mánuði, sem nemur aukinni kennsluþörf, til þess að nemendur fái tilskilda kennslu.
d.
Veiti skóli verknámskennslu eða aðra kennslu, er hefur í för með sér nauðsynlega deildaskiptingu umfram það, að kennslustundir í óskiptum bekk (bekkjardeild) séu 20 fleiri en nemendastundir á mánuði, hækkar stundafjöldi sem nemur aukinni kennsluþörf. Þó má ekki að jafnaði hafa færri en tólf nemendur í sérkennslutímum í einstökum bekkjardeildum.
e.
Sé heimavist við skóla, má auka stundafjölda samkvæmt a- og b-liðum um allt að 20% vegna þeirra nemenda, sem eru samtímis í heimavist, m.a. vegna umsjónar utan kennslustunda.
f.
Greiddar stundir vegna forfalla samkvæmt læknisvottorði endurgreiðast úr ríkissjóði, en koma ekki til frádráttar stundafjölda samkvæmt liðunum a–e. Störf stjórnskipaðra prófdómenda teljast ekki með reiknuðum stundum. Sama gildir um greiðslu yfir- og eftirvinnuálags, heimavinnu og vinnu í kaffitímum, sbr. 17. gr.

     Almenn ákvæði b–f-liða gilda einnig fyrir iðnfræðsluskóla og húsmæðraskóla, eftir því sem við getur átt.
     Víkja má frá ákvæðum a–e-liða til hækkunar, þegar svo stendur á, að ekki er hægt innan þeirra að ná tilskilinni kennslu samkvæmt námsskrá eða nauðsynlegri umsjón í heimavist eða vegna félagsstarfsemi nemenda. Slík frávik skulu úrskurðuð af ráðuneytinu til eins árs í senn eða fleiri ára, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
     Þó skal ekki leyfa slík frávik umfram það, að útgjöld ríkissjóðs þeirra vegna nemi allt að tveimur af hundraði (2%) af áætluðum heildarútgjöldum hans samkvæmt þessari grein, nema samþykki fjármálaráðuneytisins komi til.
     Séu reiknaðar stundir, með samþykki skólanefndar (fræðsluráðs), fleiri en samrýmist reglum a–e eða sérstakri skriflegri undanþágu ráðuneytisins, greiðist kostnaður þeirra vegna úr sveitarsjóði.
     Verði af hálfu ráðuneytisins eða með þess samþykki gerðar breytingar á kennslu, námsefni eða skólahaldi, breytast reglur um stundafjölda til samræmis.
     Þegar ekki er fullnægt ákvæðum námsskrár um vikulegar kennslustundir og um kennslugreinar og þar af leiðandi ekki þörf fyrir þann stundafjölda, sem greindur er í a- til e-liðum, lækkar fjöldi reiknaðra stunda og samsvarandi greiðslur úr ríkissjóði til samræmis.
     Eigi skal að jafnaði setja eða skipa fleiri kennara við skóla en sem nemur því, að skyldukennsla þeirra sé allt að 80% af þeim stundafjölda, er viðkomandi skóli á rétt á, nema þegar 1–4 kennarar, að skólastjóra meðtöldum, fullnægja kennsluþörf og rétti skólans með fjölda skyldustunda sinna.
     Um greiðslur til smábarnaskóla gilda ákvæði 54. gr. laga nr. 34/1946, um fræðslu barna.1)

1)Sjá nú l. 66/1995, um grunnskóla.


20. gr.
     Ríkissjóður greiðir eftir á, samkvæmt endurskoðuðum reikningum og fylgiskjölum, viðhaldskostnað húsa, viðhald og endurnýjun tækja og búnaðar og húsaleigu í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur, svo og flutningskostnað nemenda, þegar við það sparast heimavist, bygging skólamannvirkja eða hagkvæmt þykir af öðrum ástæðum, í sömu hlutföllum og stofnkostnaður mundi greiddur. Heilbrigðisþjónustu í öllum skólaflokkum greiðir ríkissjóður að hálfu á móti sveitarsjóði.

21. gr.
     ...1)

1)L. 45/1979, 12. gr.


22. gr.
     Sveitarfélög greiða ein húsvörslu, hitun, lýsingu, ræstingu og allan annan rekstrarkostnað, sem ekki er sérstaklega nefndur, og ráða starfslið til þeirra starfa, sem hér um ræðir, að fengnum tillögum skólastjóra.
     Í heimavistarskólum fyrir nemendur, sem ekki eiga samleið með öðrum í námi, greiðir ríkissjóður, auk framantalins kostnaðar, helming fæðiskostnaðar og helming kostnaðar við gæslu og þjónustu.

23. gr.
     Húsnæði til skólahalds má taka á leigu með samþykki menntamálaráðuneytisins, að fengnum tillögum fræðslumálastjóra.
     Hreinar leigutekjur af húsnæði eða öðrum eignum skóla koma í hlut ríkissjóðs og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur.
     Um leigu á eignum skóla má ákveða í reglugerð.
     Menntamálaráðuneytið ákveður heimavistargjöld nemenda í heimavistum í skólum utan skyldunáms, að fengnum tillögum fræðslumálastjóra og skólanefnda svo og iðnfræðsluráðs.

24. gr.
     Skólamannvirki þau, sem lög þessi taka til, skulu vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur. Ákvæði þetta gildir ekki um framkvæmdir skv. 12. gr.
     Umráð og umsjón skólamannvirkja, sem eru sameign ríkis og sveitarfélaga, er í höndum sveitarstjórna (skólanefnda), nema öðruvísi sé ákveðið í reglugerð.
     Skylt er sveitarfélögum að sjá um eðlilegt viðhald eigna þessara að mati byggingadeildar menntamálaráðuneytisins.

IV. kafli.
Endurskoðun og reikningshald.
25. gr.
     Fjármálaeftirlit skóla hefur umsjón með fjárhagslegri framkvæmd laga þessara, að því er varðar skóla, sem eru sameign ríkis og sveitarfélaga, samkvæmt því sem menntamálaráðuneytið ákveður í reglugerð. Skulu fjármálaeftirlitinu afhentir ársreikningar skólanna til endurskoðunar og úrskurðar.
     Menntamálaráðuneytinu skal sent samrit ársreikninga skólanna, athugasemda og úrskurða.
     Rísi ágreiningur um reikningana eða einstök atriði þeirra, sker menntamálaráðuneytið úr.

26. gr.
     Hlutaðeigandi sveitarfélög annast fjármál og reikningshald skóla, sem lög þessi taka til, en falið geta þau skólanefnd, skólastjóra eða sérstökum reikningshaldara að hafa á hendi reikningshald, í umboði sínu. Val reikningshaldara er háð samþykki menntamálaráðuneytisins.
     Reikningar skólanna skulu endurskoðaðir á sama hátt og reikningar hlutaðeigandi sveitarfélaga. Menntamálaráðuneytið og aðilar í umboði þess skulu eiga aðgang að öllu slíku reikningshaldi og upplýsingum um skólakostnað.
     Menntamálaráðuneytið ákveður, hver skuli annast reikningshald og endurskoðun þeirra skóla, sem taldir eru í 14. gr. og eru að öllu leyti eign ríkisins.

V. kafli.
Ýmis ákvæði.
27. gr.
     Nú er skóli, sem kostaður er sameiginlega af ríki og sveitarfélagi, lagður niður samkvæmt fyrirmælum eða með samþykki menntamálaráðuneytisins, að fenginni umsögn fræðslumálastjóra og skólanefnda eða fræðsluráða, og skulu þá skuldlausar eignir skólans skiptast milli aðila í sama hlutfalli og stofnkostnaður var greiddur.

28. gr.
     Menntamálaráðuneytið setur reglugerðir1) um framkvæmd laga þessara.
     ...2)

1)Rg. 213/1975 (um rekstrarkostnað grunnskóla). Rg. 345/1978 (um stofnkostnað skólamannvirkja).2)L. 63/1974, 85. gr.


29. gr.
     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu vera komin að fullu til framkvæmda 1. september 1968. Þó geta sveitarfélög, sem að húsmæðraskóla standa, að fengnum tillögum skólanefndar, fyrir 1. september 1968 ákveðið, að skipting rekstrarkostnaðar skólans skuli áfram fara eftir reglum laga nr. 41/1955.
     [Rekstrarkostnaði héraðsskóla, sem reistir hafa verið af ríki og sveitarfélögum og ekki hafa verið afhentir samkvæmt lögum nr. 34 18. apríl 1962, skal, ef hlutaðeigandi sveitarfélög óska, skipta eftir ákvæðum laga nr. 41 17. maí 1955, og gilda ákvæði þeirra laga um rekstrarkostnað einnig fyrir skólaárið 1968–1969.]1) Jafnóðum og lög þessi koma til framkvæmda falla úr gildi lög nr. 41/1955, með áorðnum breytingum, um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, og önnur lagaákvæði, sem fara í bága við lög þessi.

1)L. 50/1969, 1. gr.


Ákvæði til bráðabirgða.
     ...