Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.
Lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík
1972 nr. 22 3. maí
I. kafli.Markmið skólans og skipulag.
1. gr. Markmið Stýrimannaskólans er að veita þá fræðslu, er þarf til að standast fiskimannapróf, farmannapróf og próf skipstjóra á varðskipum ríkisins.
2. gr. Skipstjórnarnám skal vera í 4 stigum, og veiti hvert stig tiltekin atvinnuréttindi, eins og þau verða ákveðin í lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. 1. stig farmanna og fiskimanna, námstími 6 mán. 2. stig farmanna og fiskimanna, námstími 71/2 mán. 3. stig farmanna, námstími 71/2 mán. 4. stig skipstjóraefna á varðskipum ríkisins, námstími 4 mán.
Heimilt er að lengja námstímann með reglugerðarákvæði.
3. gr. Til þess að ljúka 2., 3. og 4. stigi skipstjórnarnáms þarf nemandi áður að hafa lokið lægri stigum.
II. kafli.Kennsla.
4. gr. Í skólanum skal kenna: Stærðfræði, siglingafræði, þar með talin kennsla í notkun siglinga- og fiskileitartækja, íslensku, ensku, dönsku, eðlisfræði, rafmagnsfræði, vélfræði, sjórétt, landa- og veðurfræði, heilsufræði, bókhald, viðskiptafræði, sjómennsku og íþróttir, einkum sund. Þá skal leitast við að veita nemendum fiskimannadeildar fræðslu um fiskverkun og annað, er lýtur að meðferð og geymslu fisks um borð í skipum.
Auk þessa skal kenna þær fræðigreinar, sem sérstaklega er krafist fyrir skipstjóraefni á varðskipum ríkisins.
Heimilt er að bæta við námsgreinum, ef þörf þykir. Kennslumagn í hverri grein skal ákveðið í reglugerð.
III. kafli.Inntaka nemenda.
5. gr. Almenn inntökuskilyrði í skólann eru þessi:
- 1.
- Að fullnægja kröfum reglugerðar um siglingatíma.
- 2.
- Að hafa þá sjón, heyrn og málfæri, sem yfirmannsstaða krefst.
- 3.
- Að kunna sund.
- 4.
- Að vera ekki haldinn neinum næmum sjúkdómi eða líkamskvilla, er geti orðið öðrum nemendum skaðvænir.
- 5.
- Að hafa lokið gagnfræðaprófi eða hliðstæðu prófi.
Heimilt er að halda námskeið við skólann fyrir þá, sem ekki hafa gagnfræðapróf eða annað hliðstætt próf. Námskeið þetta skal standa minnst 4 mánuði. Námsgreinar skulu vera: Stærðfræði, eðlisfræði, íslenska, enska og danska. Skal námsefnið miðað við það, sem kennt er til gagnfræðaprófs í þessum greinum. Próf frá þessu námskeiði með tilskilinni einkunn veitir rétt til setu í 1. bekk, sé öðrum inntökuskilyrðum fullnægt.
IV. kafli.Kennslutími.
6. gr. Heimilt er að halda hálfsmánaðar námskeið í stærðfræði og íslensku eða fleiri greinum að haustinu, áður en skóli hefst, fyrir þá, er ekki náðu tilskilinni lágmarkseinkunn í þessum greinum til að setjast í hærri bekk, en náðu þó tilskilinni lágmarksmeðaleinkunn, eins og ákveðið verður í reglugerð.
V. kafli.Próf.
7. gr. Próf skulu haldin í lok kennslutímabils hvers stigs og skulu gefin út prófskírteini fyrir hvert stig. Prófskírteini við próf 2. stigs, 3. stigs og 4. stigs skulu gefin út bæði á íslensku og ensku.
8. gr. Við próf 1., 2., 3. og 4. stigs skal auk kennarans, sem prófar, vera einn prófdómari í hverri grein, nema í siglingafræði skulu vera tveir prófdómarar, og skipar ráðuneytið prófdómara að fengnum tillögum skólastjóra.
9. gr. Vilji maður ganga undir próf án þess að hafa stundað nám við skólann, skal hann senda menntamálaráðuneytinu beiðni um það eigi síðar en tveimur mánuðum áður en próf hefst, og skal fylgja beiðninni vottorð um, að umsækjandi fullnægi kröfum þeim, er um getur í 1.–5. lið 5. gr. þessara laga, og vottorð um þann undirbúning, er hann hefur fengið.
Heimilt skal skólastjóra að veita manni leyfi til að ganga undir próf upp úr undirbúningsdeildinni, þótt hann hafi ekki stundað þar nám.
VI. kafli.Kennarar skólans.
10. gr. Menntamálaráðuneytið skipar skólastjóra við skólann og fasta kennara eftir þörfum að fengnum tillögum skólastjóra. Skólastjóri ræður stundakennara eftir þörfum.
Laun skólastjóra og fastra kennara skulu ákveðin í kjarasamningum starfsmanna ríkisins eða með dómi kjaradóms.
11. gr. ...1)
1)L. 51/1978, 18. gr.
VII. kafli.Ýmis ákvæði.
12. gr. Kostnaður við skólahaldið greiðist úr ríkissjóði.
13. gr. Menntamálaráðuneytið setur reglugerð,1) þar sem ákveðið sé um námsefni fyrir hvert stig. Enn fremur ákvæði um próf og einkunnir, inntöku nemenda í skólann, kennslutilhögun, námskeið og annað, er varðar skólahaldið almennt.
1)Rg. 174/1991
, sbr. 238/1992, og 175/1991.
14. gr. Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn skólans.
Í skólanefnd eiga sæti 7 menn. Ráðuneytið skipar 5 skólanefndarmenn til 4 ára í senn: tvo samkvæmt tilnefningu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, annan úr farmannastétt, hinn úr fiskimannastétt, einn samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands íslenskra útvegsmanna. Formann skipar ráðuneytið án tilnefningar. Tvo skólanefndarmenn skipar ráðuneytið til eins árs í senn samkvæmt tilnefningu nemenda skólans. Tilnefning fulltrúa nemenda skal fara fram eftir reglum, sem ráðuneytið setur.
Skólanefndin skal fylgjast með kennslutilhögun og námsefni og vera skólastjóra til aðstoðar í málefnum skólans almennt.
15. gr. Námskeið, er veiti þá fræðslu, sem um getur í 5. gr., svo og þá fræðslu, sem þarf til að standast fiskimannapróf 1. stigs og jafnframt til að setjast í 2. bekk í stýrimannaskóla, skal skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík láta halda árlega á eftirfarandi stöðum, þegar næg þátttaka er að dómi ráðuneytisins: Akureyri, Ísafirði og í Neskaupstað.
Námskeiðin skulu haldin á sama tíma og kennsla fer fram í sams konar deildum Stýrimannaskólans í Reykjavík. Inntökuskilyrði skulu vera hin sömu og í sams konar deildir í Reykjavík.
Heimilt er að hafa námskeiðin á öðrum stöðum en að ofan greinir, að tilskildu samþykki menntamálaráðuneytisins.
Í reglugerð skal ákveðið nánar um lágmarksþátttöku o.fl. varðandi námskeiðin. Verkefni fyrir skrifleg próf við lok námskeiðanna skulu send frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Prófdómara skipar menntamálaráðuneytið að fenginni tillögu skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík.
Kostnaður við námskeiðin greiðist úr ríkissjóði af fjárlagalið Stýrimannaskólans.
16. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. ...